Strendur og fjallastígar 9.-19.september 2019
Náttúra Krítar er ótrúlega fjölbreytt, ríkt gróður- og dýralíf, fjallatindar sem teygja sig upp yfir 2000 metra og sandstrendur svo langt sem augað eygir. Loftslagið er milt og þægilegt. Gengið verður um fjallastíga Ljósufjalla og eftir suðvestur-ströndinni sem er sannkölluð furðuströnd. Í fjallaþorpunum hefur mannlíf og þjóðleg menning varðveist nær óbreytt um aldir. Á svæðinu eru hrikaleg gljúfur þar sem segja má að 600 metra háir hamra-veggirnir, beggja vegna falli næstum saman. Á fáfarinni strönd við fagra vík verður gott að hvíla lúin bein og fá sér sundsprett í tærum sjónum. Jafnframt því að njóta náttúrunnar og ægifegurð fjallanna verður lögð áhersla á að kynnast einstakri sögu og menningu Krítar, vöggu Evrópu. Það er fyrst á okkar dögum að Krítverjar hafa orðið sjálfstæðir nema ef til vill hinir stoltu fjallabúar eyjarinnar, sem aldrei gáfust upp og bjuggu ávalt við mikla einangrun einkum í héraðinu Svakia sem er aðal göngusvæði Göngu-Hrólfa.Gangan hefst á suðurströnd eyjarinnar, þaðan er haldið upp á Omalossléttuna og á fjallið Gingilos. Þá liggur leiðin aftur niður á strönd um hið fræga Samariagil. Síðan er gengið og siglt til bæjarins Hora Sfakia. Þaðan er haldið til strandbæjarins Platanias þar sem gist veður í íbúðarhóteli næstu 4 nætur.
Dagur 1.. Keflavík - Chania Eftir beint leiguflug frá Keflavík er lent í Chania þar sem Krítverski fararstjórinn María tekur á móti hópnum. Gist í Hania.
Dagur 2. Sougia – Agia Irini - Omalos Nú er haldið frá Souga og ströndinni og stefnt til fjalla. Gengið er eftir breiðum og fjölförnum stíg um hið fallega Agia Irina-gil og upp á Omaloshásléttuna sem er í Ljósufjöllunum. Landslagið er einstaklega fallegt og fjölbreytt og mjög ólikt því sem blasti við daginn áður þegar haldið var meðfram sjónum. Þegar komið er upp úr gilinu er stoppað til að njóta hádegisverðar áður en hópnum verður skutlað á hótel á Ómaloshásléttunni. Gengið 4 tíma hækkun 700 metra.
Dagur 3. Gingilos Dagurinn er tekinn snemma og haldið að Xiloskalo sem er í 1200 metra hæð, þaðan er lagt á fjallið Gingilos sem er 2080 m. Því hærra sem komið er í fjallið opnast æ stórbrotnara útsýni yfir Omalossléttuna, Samariagilið og Ljósufjöllin. Leiðin liggur um þröngt fjallaskarð og þaðan blasir víðernið við. Þegar komið er yfir skarðið verður slóðinn ógreinilegri og á fáeinum stöðum þarf að klöngrast örlítið. Þegar toppnum er náð njótum við um stund hins einstaka útsýnis til allra átta. Í norði blasir Hania borg við, í suðri Lýbíuhaf með eyjuna Gavdos i fjaska og í austri ber Ljósufjöllin við himin þar sem Pachnes, 2452 m.á hæð gnæfir hæst, til vesturs er strandlegjan svo langt sem augað eygir. Við höldum sömu leið til baka og gistum næstu nótt á sama stað. Gengið um 6-7 tíma, hækkum 880 metrar.
Dagur 4. Samariagilið.Dagurinn hefst í Xiloskalo sem er í 1200 metra hæð, þaðan er haldið niður í hið fræga Samariagil. Fyrsti hluti leiðarinnar er brattur en stígurinn er góður yfirferðar. Fyrr en varir er komið inn í þröngt gilið og í því því miðju er stoppað í rústum samnefnds þorp til að snæða nesti. Gilið á síðan enn eftir að þrengjast svo mikið að einungis eru nokkrir metrar á milli hárra klettaveggjanna. Eftir um 6 tíma göngu opnast gilið til sjávar og komið er í bæinn Agia Roumeli. Þar gefst nægur tími til að taka sundsprett og skola af sér göngrykið fyrir kvöldmat. Gist í Agia Romeli. Göngutími 5- 6 tíma, lækkun 1200 metrar.
Dagur 5. Agia Romeli -Loutro. Snemma morguns er haldið gangandi meðfram ströndinni frá Agia Romeli til Lutro. Leiðin liggur eftir sandfjöru eða fyrir ofan klettabellti við ströndina. Við stoppum og hvílum okkur við látlausa en undurfagra kirkju, Agia Pavlos og síðan eftir drjúga göngu er komið á fallega Marmaraströnd. Þar fáum við síðbúinn hádegisverð. Það gefst síðan tími til að kæla sig í tærum sjónum áður en genginn er síðasti spölurinn til Lutro þar sem gist er næstu tvær nætur. Gengið 6 tíma hækkn og lækkun um 100 metrar
Dagur 6 Lutro-Arathenagilið
Nú er gengið frá Lutro eftir stölluðum ökrum upp til gamla þorpsins Anapollis þar sem gaman er að stoppa á þorpsbarnum og fá sér hressingu. Síðan er haldið er að hinu dramatíska eyðiþorpi Aradhena sem fór í eyði ekki alls fyrir löngu vega nágranna erja og blóðefnda. Þarna í 300-400 metra hæð er útsýnið engu líkt. Þá er haldið niður hið vilta og spennandi Arathenagilið þar sem stundum þarf að hoppa eða smeygja sér á milli steina. Gangan endar á Marmaraströndinni þar sem hægt er að fá sér hressingu og fara í sjóinn áður en haldið er síðasta spölinn til Lutro. Gengið 6 tíma hækkun og lækkun 400 metrar.
Dagar 7-9 Slökun í Loutro
Eftir góða göngu upp í fjöllin og um Aradena gilið koma nokkrir dagar í afslöppun á hinum dásamlega stað Loutro. Þar er hægt að sleikja sólina, fara á kajak (ekki innifalið), sigla eða ganga um næsta nágrenni svo sem yfir á Ferskvatnsströndina eða Marmaraströndina eða bara njóta lífsins í Loutro. Hádegismatur og kvöldmatur ekki innifalið þessa daga.
Dagur 10 Gengið til Chora Sfakion og ekið til Chania
Snemma morguns er lagt af stað gangandi til Hora Sfakion þaðan sem rúta ekur hópnum síðasta spölinn til Chania. Leiðin liggur um Ferskvatnsströndina en ekki gefst ími til að stoppa lengi þar því stefnt er að því að koma til Chania fljótlega eftir hádegi, þar verður gist síðustu nóttina. Borgin er ævagömul og þar finnast minjar frá öllum skeiðum krítverskrar sögu. Mikið er af spennandi veitingastöðum og verslunum.
Göngutími 3 tímar, hækkun 150 metrar.
Dagur 11 Heimferð
Seinni part dags er flogið heim frá Chania.
Fararstjóri: Jósep Gíslason og Anna Kelesedi
Innifalið: Flug, gisting, fullt fæði nema drykkir, allur flutningur og fararstjórn göngudagana og gisting með morgunmat síðustu 5 dagana.